Frumskjal frá síðasta Öxarárþingi 29. júní 1797. Úr skjalasafni Gerða.
Frumskjal frá síðasta Öxarárþingi 29. júní 1797, með áritun Magnúsar Stephensen m.a. Sr. Þórður Brynjólfsson prestur á Kálfafelli selur 5 hundruð í jörðinni Gerðar í Landeyjum fyrir hönd föðursystur hans, jómfrú Þórdísar Guðmundsdóttur, systur hennar Valgerði Guðmundsdóttur húsfreyju í Gerðum.
Séra Þórður Brynjólfsson fæddist 8. september 1763 og andaðist 1. janúar 1840. Foreldrar hans voru Brynjólfur Guðmundsson (1734-1803) í Skipagerði og kona hans Helga Jónsdóttir (1736-1787). Þórður var tekinn í Skálholtsskóla árið 1778 og varð stúdent þaðan 26. apríl 1784 með góðum vitnisburði. Hann varð djákni á Breiðabólstað í Fljótshlíð 1787 og var prestur á Kálfafelli, í Þykkvabæjarklaustursprestakalli, Sólheimaþingi og síðasti Reynisþingi. Hann var prófastur í Vestur-Skaftafellssýslu 1805-1830. Séra Þórður þótti „mikilhæfur maður, vel gefinn, fjörmaður, en nokkuð undarlegur í geði, mjög ófríður sýnum”, segir í Íslenskum æviskrám (V:91). Fyrsta kona hans var Jórunn Jónsdóttir og voru þau barnlaus. Önnur kona Þórðar var Margrét Sigurðardóttir, ekkja séra Jóns Steingrímssonar og stjúpmóðir Jórunnar fyrstu konu Þórðar. Þau áttu fjögur börn, eitt þeirra var Margrét (1799-1866) kona Magnúsar Stephensens (1797-1866) sýslumanns. Þriðja kona Þórðar var Solveig Sveinsdóttir og áttu þau átta börn.
Heimildir
- Íslendingabók, www.islendingabok.is.
- Páll Eggert Ólason, Íslenzkar æviskrár V.
Uppskrift jarðarsölubréfsins með nútímastafsetningu.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga