Eftirtalin skjalasöfn verða með opið hús á skjaladeginum, eða sýningar tengdar deginum.
Þjóðskjalasafn Íslands
Laugavegi 162, 105 Reykjavík
Opið hús verður í Þjóðskjalasafni Íslands á norrænum skjaladegi 9. nóvember 2013 frá kl 11:00 til 16:00. Dagskráin fer fram í skrifstofubyggingu safnsins að Laugavegi 162, gengið inn um portið. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir. Sjá dagskrá.
Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar
Dalbraut 1, 300 Akranes
Héraðsskjalasafn Akraness verður opið á skjaladaginn frá kl 11:00 til kl 14:00. Þar stendur uppi sýningin „Víkingur AK 100“, en þar er að finna ýmislegt úr sögu gamla Höfðingjans, skjöl sem afhent hafa verið, ljósmyndir úr fórum Ljósmyndasafns Akraness og haraldarhus.is og líkan áhugamannsins Gísla Teits Kristinssonar. Sýningin stendur til 16. nóvember.
Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
Bjarnarbraut 4-6, 310 Borgarnesi
Í tilefni norræna skjaladagsins verða sýnd skjöl og myndir sem tengjast Ólafi Guðmundssyni verkamanni og fjölskyldu hans sem fluttu í Borgarnes um aldamótin 1900 og reistu sér þar hús sem þau nefndu Dalbrún. Sýningin verður opnuð föstudaginn 8. nóvember og mun standa alla virka daga frá kl 13:00 – 18:00 til 30. nóvember 2013.
Héraðsskjalasafn Dalasýslu
Miðbraut 11, 370 Búðardalur
Héraðsskjalasafn Dalasýslu verður með sýningu í tilefni norræna skjaladagsins laugardaginn 9. nóvember kl. 13-17 í Byggðasafni Dalamanna á Laugum í Sælingsdal.
Yfirskrift skjaladagsins að þessu sinni er „Fjársjóðir úr fórum skjalasafnanna“. Í héraðsskjalasafninu eru eintómir fjársjóðir og gersemar og því úr vöndu að ráða. Fyrir valinu varð nýjasta viðbót safnsins, vísnasafn Einars á Laugum.
Í lok október var safninu afhent gögn Einars Kristjánssonar fv. skólastjóra á Laugum og héraðsskjalavarðar. Þar á meðal er vísnasafn Einars, allnokkuð að umsvifum. Hefur það að geyma vísur og kvæði ort af Dalamönnum frá ýmsum tímum, en meðal annars hefur Einar lagt sig eftir að safna kveðskap Dalakvenna.
Vísnasafn Einars verður grunnurinn að sýningu norræna skjaladagsins 2013, auk annars kveðskapar. Björn St. Guðmundsson mun flytja ljóð og er öðrum velkomið að fylgja í fótspor hans. Samhliða sýningu Héraðsskjalasafnsins verður Byggðasafn Dalamanna opið fyrir gesti.
Allir eru velkomnir á sýningu héraðsskjalasafnsins á norræna skjaladaginn.
Héraðsskjalasafnið Ísafirði
Safnahúsinu Eyrartúni, 400 Ísafjörður
Í Héraðsskjalasafninu Ísafirði verður opið á skjaladaginn kl 13:00 – 16:00. Sýndar verða gerðabækur byggingarnefndar Ísafjarðar, sem skipuð var árið 1866 sem og skipulagsuppdrættir frá ýmsum tímum. Það verður heitt á könnunni og eitthvað gott með.
Þá heldur Þórunn Sigurðardóttir fyrirlestur um Handritasmiðjuna í Vigur, menningarstarfsemi Magnúsar digra Jónssonar. Fyrirlestur Þórunnar er á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Allir velkomnir.
Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu
Höfðabraut 6, 530 Hvammstangi
Á skjaladaginn verður opið í héraðsskjalasafninu kl 13:00 – 16:00. Við ætlum að leggja áherslu á að sýna ljósmyndir af óþekktu fólki og freista þess að fá nöfn við þessi andlit. Þessi sýning verður svo opin vikuna eftir skjaladaginn á opnunartíma safnsins.
Héraðsskjalasafn Fjallabyggðar
Gránugötu 24, 580 Siglufjörður
Leikskrár frá Leikfélagi Gagnfræðaskóla Siglufjarðar á árunum 1954-1976 verða sýndar í bókasafninu. Höfum ekki kost á því að vera með opið 9. nóvember, en sýningin verður opin föstudaginn 8. nóvember frá 13:30 til 17:00 og svo á opnunartíma bókasafnsins út mánuðinn.
Héraðsskjalasafn Austfirðinga
Laufskógum 1, 701 Egilsstaðir
Í tilefni af Dögum myrkurs á Austurlandi dagana 7.-17. nóvember mun Héraðsskjalasafn Austfirðinga sýna kvikmyndina Austurland eftir Eðvarð Sigurgeirsson. Myndin var gerð að frumkvæði Austfirðingafélagsins á Akureyri og árið 1970 var hún færð Múlasýslum, Seyðisfirði og Neskaupstað að gjöf. Kvikmyndin var síðar afhent Héraðsskjalasafni Austfirðinga til varðveislu. Sjá nánar um kvikmyndina.
Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar
Urðarteigi 10, 740 Neskaupstaður
Á Dögum myrkurs á Austurlandi verður Skjala- og myndasafn Norðfjarðar (Héraðsskjalasafnið Neskaupstaðar) með kvikmyndasýningar í Safnahúsinu við Egilsbraut í Neskaupstað laugardaginn 16.nóvember 2013.
- Kl 15:00 sýnum við Akureyrarkvikmyndir 1907-1969.
- Kl 17:00 sýnum við Miðbik 20. aldarinnar í lifandi myndum.
Þetta er samstarf Skjala- og myndasafns Norðfjarðar (Héraðsskjalasafns Neskaupstaðar), Kvikmyndasafns Íslands og Safnahússins í Neskaupstað.
Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja
Safnahúsið við Ráðhúströð, 900 Vestmannaeyjar
Í tilefni af Safnahelgi á Suðurlandi, 31. október – 3. nóvember ætlar Héraðsskjalasafnið í Vestmannaeyjum að setja upp sýningu í Einarsstofu Safnahússins með þemanu „Einkaskjalasöfn kvenna í Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja : líf og störf“. Sýningin verður opin laugardaginn 2. nóvember frá kl 11:00 – 17:00, og svo út nóvembermánuð á opnunartíma hússins. Alls eru nú um fjörutíu einkaskjalasöfn kvenna í safninu, bæði stór og lítil, og þeim fer fjölgandi. Söfnin sýna margvíslegar hliðar á lífi og störfum kvenna í Eyjum síðustu tvær aldirnar, og hafa orðið til þess að stórefla áhuga á kvennasögu í Vestmannaeyjum. Nú er jafnvel komin upp sú hugmynd að taka saman bók um konurnar, þar sem að líf þeirra og störf fá verðugan sess. Það hefur mikið verið rætt og ritað um karlmennina í sögu Vestmannaeyja, t.d. sjómenn, bændur og embættismenn (sbr. Saga Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen), en nú er komið að konunum, þær eru ekki síður merkilegar.