Leiðari

Í Biblíunni segir frá því að djöfullinn sýndi frelsaranum öll ríki veraldar og bauð að gefa honum, því „ef þú fellur fram og tilbiður mig, skal það allt verða þitt.“ Ekki gekk frelsarinn að þessu en vildi frekar feta þrönga stiginn að markinu.

Að breyttu breytanda mætti segja eitthvað svipað um þá fjársjóði sem skjalasöfn landsins geyma, nema ekki er gerð krafa um neina tilbeiðslu, aðeins eðlilega umgengnishætti um viðkvæm gögn. Raunar eru þetta fjársjóðir sem mölur og mygla fá grandað en þeir verða ekki verðlagðir á markaðstorgum peningahyggjunnar. Einstök skjöl eru líka misverðmæt og fer það mat mikið eftir notendum. Það sem einum virðist fánýtt plagg er himnasending í augum annars.

Á söfnunum hafa verið samin stór og merk verk um sögu landsins og einstakra héraða, skáld hafa sótt þangað innblástur, námsmenn leitað upplýsinga og ótalmargir komið að leita rótanna. Sum sé bæði stór viðfangsefni og smá. Allri þessari starfsemi fylgir ótvíræð gleði, ekki svo sem stanslaus sæla og stundum gengur ekkert og þá er leiðinlegt. En þegar rétta plaggið kemur í leitirnar, eftir kannski mikla leit og flettingar, er ávöxturinn ríkulegur, tilfinningin að hrópa upp: „Sjáðu hvað ég fann!“

Þeir sem starfa á skjalasöfnunum hafa oft upplifað þessa gleði við að finna gamalt skjal, bæði á eigin skinni og hjá þeim sem söfnin sækja. Eitt meginhlutverk norræns skjaladags er að opna söfnin fyrir notendum svo sem flestir fá notið fjársjóðanna sem þau geyma.

Sjáðu hvað ég fann!