„Þá var pappír dýr í sveitum víða”

Fyrsta síða fólksregisturs yfir Skógarstrandarsveit, samantekið í mars 1703.

Manntalið 1703 fjársjóður í Þjóðskjalasafni

Einn mesti dýrgripur í Þjóðskjalasafni Íslands er Manntalið 1703. Sumarið 2013 var það skráð á lista UNESCO Minni heimsins, Memory of the World Register. Á listann komast einungis skjöl eða aðrar skráðar menningarheimildir sem hafa þýðingu fyrir allt mannkyn. Sérstaða manntalsins 1703 felst í því að það er elsta manntal í heiminum sem varðveist hefur og nær til allra íbúa í heilu landi þar sem getið er nafns, aldurs, heimilisfangs flestra og þjóðfélags- eða atvinnustöðu allra þegnanna. Enginn önnur þjóð í heiminum á jafn nákvæmar lýðfræðiupplýsingar frá þessum tíma.

Framlag til heimsmenningar

Skráning Manntalsins 1703 á lista UNESCO Minni heimsins eru mikil tíðindi og kærkomin viðurkenning á sérstöðu og mikilvægi þessarar einstöku heimildar. Þetta er öllum fagnaðarefni, enda enn ein viðurkenning þess að Íslendingar eiga afar mikilvægar og merkilegar heimildir um samfélag sitt, ritheimildir sem finnast ekki hjá öðrum þjóðum.

Áhugaverðar upplýsingar

Manntalið veitir margvíslegar áhugaverðar upplýsingar svo sem um nafnahefð og störf eða atvinnuheiti Íslendinga. Þannig voru 670 hreppsstjórar, 245 prestar, 76 skóladrengir, 7 böðlar og 6 fálkaveiðimenn árið 1703. Í manntalinu eru 725 skírnarnöfn, 387 karlmannsnöfn og 338 kvenmannsnöfn. Algengasta kvenmannsnafnið var Guðrún en það bar fimmta hver kona. Jón var hins vegar algengasta karlmannsnafnið. Tæpur fjórðungur karla hét því nafni.

„Þá var pappír dýr í sveitum víða”

Manntalið 1703 er skráð í alls 92 stakar bækur eða hefti. Sú lengsta úr Snæfellsnessýslu og er sú bók rúmlega 100 blaðsíður. Hefti úr stökum hreppum geta verið örfár síður. Auk þess tilheyra manntalinu 41 stakur miði eða blöð. Manntalið er skráð á rúmlega 1700 blaðsíður.

Manntalsskráningin þótti sérstakt tiltæki og vakti mikla athygli meðal landsmanna. Sumir nefndu veturinn 1702-1703 manntalsvetur. Mikil pappírsnotkun vakti viðbrögð. Í Grímsstaðaannál segir: „Þá var pappír dýr í sveitum víða, er öllu þessu var aflokið.”

Manntalsvefur Þjóðskjalasafns

Þjóðskjalasafn Íslands hefur frá árinu 2001 unnið markvisst að því að birta manntöl, sem það varðveittir í frumriti, leitarbær á netinu. Til þess hefur það sett upp sérstakan vef www.manntal.is. Landsmann eru hvattir til þess að kynna sér manntalið 1703 þar og þau tólf önnur manntal sem þar er að finna.

 

Þetta efni er frá Þjóðsskjalasafni Íslands