Víkingur AK 100

Víkingur AK 100 fánum prýddur við fyrstu komu í heimahöfn á Akranesi. Það var föstudaginn 21. október kl. 14:30 árið 1960 að því er kemur fram í frétt í Mbl. frá Oddi Sveinssyni, fréttamanni og kaupmanni í Brú, Akranesi. Ljósm.: Ólafur Árnason ljósmyndari, mynd frá haraldarhus.is.

Víkingur er eitt af fjórum systurskipum sem smíðuð voru fyrir íslenska útgerðaraðila árið 1960. Að Víkingi frátöldum voru þau Freyr, Maí og Sigurður og voru þau öll smíðuð í Bremerhaven í Þýskalandi.

Það var aðallega tvennt sem hvatti áfram áform um smíði þessara skipa árið 1958. Annars vegar var nægur fiskur á bæði Nýfundnalands- og Labradormiðum og hins vegar „fengu togarar umtalsverða leiðréttingu á fiskverði…“ (Þorleifur Óskarsson, 1991:173). Staðreyndin varð þó því miður sú að þegar þessir stóru og miklu síðutogarar komu til landsins árið 1960 var ástandið öllu verra, eins og Þorleifur skrifar:

Nýju togararnir komu til landsins á þeim tíma, þegar búið var að þurrausa miðin við Nýfundnaland og Labrador. Ekki var ástandið skárra á Íslandsmiðum. Landhelgin hafði verið færð út í 12 sjómílur, og togararnir reknir út fyrir fiskveiðitakmörkin. Samfelldur aflabrestur á djúpmiðum í kringum landið og á fjarlægum miðum árin 1960-1966 lagði togaraútgerðina í rúst á örfáum árum. (Þorleifur Óskarsson, 1991:176)

Víkingur var smíðaður fyrir Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness, sem var fysta almenningshlutafélagið á Akranesi og eitt af fyrstu almenningshlutafélögum landsins. Hlutaféð var 75.000 krónur og hluthafarnir, 180 talsins. Skipinu var hleypt af stokkunum 5. maí 1960 og Rannveig Böðvarsson, eiginkona Sturlaugs H. Böðvarssonar, gaf þá skipinu nafnið Víkingur en Sturlaugur var framkvæmdastjóri SFA þar til Valdimar Indriðason tók við. (Haraldur Bjarnason, 2011:122)

Oddur Sveinsson í Brú, fréttaritari Skagamanna, sagði frá komu nýs 1000 lesta togara til Akraness í Morgunblaðinu þann 22. október árið 1960:

Akranesi, 21. október. – Togarinn Víkingur kom hér í heima höfn sína kl. 2,30 e.h. í dag. Lagðist Víkingur að hafnargarðinum. Þar hafði safnazt fjöldi manns, til þess að fagna komu skipsins. Akraborg var stödd við hafnargarðinn og blés ákaft. Jón Árnason flutti ræðu af brúarvæng og á eftir honum, bæjarstjóri Akraness, Hálfdán Sveinsson. Síðast talaði sóknarpresturinn, sr. Jón M. Guðjónsson og blessaði áhöfnina og hið nýja skip. Á eftir var fólkinu boðið að skoða skipið og var svo margt um manninn að þröng var um borð. Víkingur fer suður til Reykjavíkur í kvöld. Víkingur er smiðaður hjá AG WEBER WERK. Hann er tæpar 1000 brúttólestir með þriggja hæða yfirbyggingu. Lestin er klædd aluminium, búin kælitækjum og rúmar 500 lestir af ísfiski. Geymar eru fyrir lifur og slor. Siglingar og fiskileitartæki eru af fullkomnustu gerð. Vistarverur prýðilega gerðar. Þetta eru 2-4 manna káetur og baðherbergi fyrir 32 menn, auk þeirra sem yfirmönnum eru ætlaðar. Víkingur gekk á heimleiðinni til jafnaðar 14,5 sjómílur og var 85 ½ klst. frá Bremerhaven eða rúmlega 3 ½ sólarhring. – Oddur.

Þegar Guðmundur Jakobsson spurði Hans Sigurjónsson, þáverandi skipstjóra á Víkingi, um hvort hann héldi að þessir 1000 tonna togarar væru heppileg skip segir hann:

Já, það held ég, það er hægt að fiska á þeim á flestum miðum, sem við þekkjum og á öllu dýpi. Ég tel að þetta sé mjög heppileg stærð, hvort sem fiskað er hér við land eða á fjarlægum miðum og fiskurinn er fluttur óunninn í land. Það er og mikill kostur að þetta eru úrvals ferðaskip, alveg sjóborgir. Munurinn á þessum og minnstu togurunum, hann er alveg ótrúlegur, en maður fann það ekki fyrr en þeir komu til sögunnar, Þormóður [goði] og Víkingur. Þá fann maður fyrst funinn og hvað maður hafði oft teflt djarft á þessum litlu […] Þessir þýzku togarar taka að mínu viti öðrum skipum fram, þó þeir ensku séu margir góðir. Mér virðist eins og það sé fremur á þeim flestum einhver veikur punktur, en það er tæpast að finna á þýzku togurunum (Guðmundur Jakobsson, 1969:133-134).

Víkingur AK 100 var lengi framan af grænn á lit eða á meðan hann var í eigu Síldar- og fiskimjölsverksmiðju Akraness hf. SFA, sem átti Heimaskaga hf. að mestu frá 1971, en var svo sameinað í Harald Böðvarsson hf. 1991. Þá fékk Víkingur AK um tíma dökkbláan lit, eftir að sá litur var innleiddur á skip HB. Síðan urðu HB skipin rauð. Haustið 2002 gekk HB inn í sjávarútvegsstoð Hf. Eimskipafélags Íslands sem varð sjálfstætt félag og hlaut nafnið Brim hf. Þar voru tvö önnur rótgróin og öflug sjávarútvegsfyrirtæki, Útgerðarfélag Akureyringa og Skagstrendingur á Skagaströnd. Það varð síðan, við uppstokkun Eimskips, að HB sameinaðist Granda hf. í janúar 2004. Nafni Granda hf. var þá breytt í HB Granda hf. og síðustu árin hefur blár litur þess fyrirtækis prýtt Víking AK 100.

Í fréttabréfi HB frá 2003 segir:

Þegar Víkingur AK landaði loðnu til bræðslu og hrognatöku á Akranesi fimmtudaginn 6. mars sl. [2003] hafði hann frá upphafi veiða sinna landað afla sem nam yfir 800.000 tonnum. Í þessum mikla heildarafla Víkings eru 45.913 tonn af bolfiski. (Heimild: Gísli Reynisson sem hefur safnað heildaraflatölum báta).

Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefur Víkingur landað 132.000 tonnum frá þessum tíma og því er heildaraflinn a.m.k. kominn í 932.000 tonn fimmtíu árum seinna.

Heimildir

  • „Nú kemur Drekinn á fullri ferð!“ – Fyrsta áhöfn Víkings AK 100. Lokaverkefni eftir Guðjón Þór Grétarsson, þjóðfræðing, 2012.
  • Víkingur AK fimmtíu ára. Haraldur Bjarnason, Árbók Akurnesinga 2011.
  • Fréttabréf HB 2003.
  • Haraldarhus.is

Hér að neðan er kvikmynd sem sýnir Víking sigla inn í heimahöfn með fullfermi sennilega á milli 1977-1980. Víkingur var sendur til Noregs í yfirhalningu og breytt í nótaskip árið 1977. Um miðbik kvikmyndarinnar sjáum við upp á bryggju þar sem skipstjórinn Guðjón Bergþórsson er í ullarpeysu með hvítan poka á tali við Valdimar Indriðason, framkvæmdastjóra Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf., Vélsmiðjunnar hf. og Heimaskaga hf. Í lok myndarinnar er rennt yfir hafnarsvæðið og sjást hús Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar. Rétt í blálokin má svo sjá þegar verið er að hækka stromp SFA.

Kvikmyndin er tekin af Birni Péturssyni, þáverandi skrifstofustjóra Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar hf.

Björn afhenti Héraðsskjalasafni Akraness þessa kvikmynd.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Akraness