„Tvöfaldur trekvart tommu panilborð og pappi og listar á milli“

Dagsetningar brunavirðinga Landspítalahússins. Elsta virðingin er frá 21.12.1930. Opna 348 úr Brunabótatryggingar húsa nr. 1631-2520. Borgarskjalasafn Reykjavíkur.

Skjalasöfnin finna fyrir auknum áhuga bæði frá fræðimönnum og almenningi að skjöl verði aðgengileg á vef. Ljóst er að ekki er möguleiki að setja öll skjöl á vef, heldur þarf að velja og forgangsraða. Borgarskjalasafn Reykjavíkur hefur nú gert aðgengilegt á vef sínum brunabótavirðingar húsa í Reykjavík allt frá árinu 1811 til ársins 1981 og er það um 29.000 opnur. Þannig er ekki lengur þörf að á koma á safnið til að skoða frumskjölin heldur hægt að nálgast þau á neti.

Brunabótavirðingar húsa er vinsælt efni á Borgarskjalasafni og eru í þeim ótrúlega miklar heimildir um hús í Reykjavíkur áður fyrr. Þessi skjalaflokkur er mikið notaður af Reykvíkingum í tengslum við endurbætur húsa og samþykkt eldri íbúða. Elstu virðingarnar eru frá árinu 1811 en frá 1874 var skylt að tryggja og meta öll hús í Reykjavík nema torfbæi og ná þær handskrifuðu bækur því frá árinu 1874 fram til 1953. Frá 1954-1981 eru til vélritaðar lýsingar á húsum og er auðveldara að leita í þeim og lesa þær en eldri lýsingarnar en þær eru ekki eins ýtarlegar.

Í virðingunum eru lýsingar á húsunum þegar þau voru byggt og oft lýsingar á þeim breytingum sem hafa verið gerðar á þeim. Þá er í lýsingunum gjarnan upplýsingar um heiti húsa, staðsetningu, byggingarár, byggingarefni, innra skipulag og stærri breytingar. Í eldri virðingunum eru oft lifandi lýsingar á húsunum að innan, til dæmis tekið fram hvort þau eru máluð eða veggfóðruð, gólfefni, hvort í húsinu sé vatnssalerni, kerlaugar, eldavélar og ofnar.

Sérstakur vefur um brunabótavirðingar:
http://www.borgarskjalasafn.is/portaldata/21/brunabotavirdingar/index.html.

Til að fara beint á brunabótavirðingar:
(eldri) http://borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-3920/6630_view-6061/.
(yngri) http://borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-3920/6630_view-5849/.

Þá hefur Borgarskjalasafn ljósmyndað nær allar gjörðabækur Kaupmannasamtaka Íslands og aðildarfélaga þeirra og gert þær aðgengilegar á vef sínum. Slóðin er http://borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-3920/6630_view-5848/.

Borgarskjalasafn varðveitir skjöl Bjarna Benediktssonar, fv. borgarstjóra og forsætisráðherra og hafa um þrjátíu þúsund síður úr safni hans verið gerðar aðgengilegar á vef, http://www.borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-3885/. Fleiri síður hafa verið ljósmyndaðar og bíða úrvinnslu.

Safnið birtir á vef fjölmargar skrá yfir skjalasöfn aðila innan Reykjavíkurborgar, einstaklinga, félög og fyrirtæki.
http://borgarskjalasafn.is/desktopdefault.aspx/tabid-3920/6630_view-2787/.

Texti: Svanhildur Bogadóttir

 

Brunabótavirðing Landspítala frá árinu 1930 þegar hann var vígður

Brunabótavirðing Landspítala frá árinu 1930 þegar hann var vígður.

Brunabótavirðingar gefa ýtarlegar lýsingar á byggingarefni og innra skipulagi húsi sem oft eru ekki aðgengileg á öðrum stöðum. Hér er lýsing á Landspítala frá árinu 1930 þegar hann var vígður:

Hús ríkissjóðs, Landspítalinn við Hringbraut með þak úr borðasúð, pappa, listum og þakhellum. Byggingin er öll þrílyft með risi og kjallara. Fjögur loft úr járnbentri steinsteypu eru í stærstum hluta byggingarinnar en í hluta hennar eru loftin fimm. Kjallaragólf og skilveggir eru úr steinsteypu. Útveggir eru einangraðir að innan með korkplötum, sem yfir er lagt vírnet og er múrsléttað yfir. Gólf í eldhúsum og baðherbergjum eru flísalögð, stigar og gangar eru lagðir gúmmídúk en annarsstaðar er terrasso á gólfum. Á neðstu hæð eru 6 sambýlissjúkrastofur, 6 einbýlissjúkrastofur, tvær dagstofur, efnarannsóknarstofa, sýnaskoðunarstofa, skrifstofa, tvö fataherbergi, hjúkrunarherbergi, þrjú baðherbergi, eldtraustur skápur, læknisstofa, kandídatsherbergi, eldhús, tvö uppþvottaherbergi, áhaldastofa og kennslustofa. Herbergi fyrir sjúkrabifreið, fimm vatnssalerni, pallur, lyftuklefi, lyfjaherbergi, 12 fastir skápar, tvö anddyri og fjórir gangar.

Á miðhæðum eru fimm sambýlisstofur, sex einbýlisstofur, tvær dagstofur, hjúkrunarherbergi, eldhús, tvö uppþvottaherbergi, tvö baðherbergi, biðstofa, skrifstofa, skurðstofa, læknastofa, kandídatsherbergi, rannsóknarstofa, tvö umbúðaherbergi, verkfærastofa, sótthreinsunarklefi, língeymsla, lyfta, pallur fimm vatnssalerni, 26 skápar, anddyri og fjórir gangar.

Á efstu hæð eru fjórar sambýlissjúkrastofur, níu einbýlisstofur, þrjár fæðingarstofur, hjúkrunarstofa, tvö eldhús, tvö uppþvottaherbergi, þrjú baðherbergi, tvær línstofur, tveir pallar, lyftuklefi, tveir legupallar, tvö fataherbergi, fimm vatnssalerni, 18 skápar, tvö anddyri og átta gangar.

Á þaklofti eru fyrirlestrarsalur, ljósmyndastofa, bókasafnsherbergi, lestrarstofa, skjalaherbergi, safnstofa, aðgerðastofa, lyftuherbergi, fjögur geymsluherbergi og fimm gangar.

Í kjallara eru þrjár röntgenlækningastofur, tveir vélaklefar, tveir ?, þrír fataklefar, biðstofa, skrifstofa, tveir myrkraklefar, vélaherbergi, búr, borðstofa, tvö framreiðsluherbergi, mjólkurstofa, eldhús, fataherbergi, nuddlækningastofa, tvö læknisherbergi, tvær ljóslækningastofur, tvö geymsluherbergi, rafmagnsherbergi, miðstöðvarherbergi, eldiviðarhús, tveir kolaklefar, baðherbergi, steypubaðklefi, þrjú vatnssalerni, tveir ísklefar, lyftuklefi, sjö gangar og fimm anddyri.

Steinsteyputröppur eru við allar útidyr byggingarinnar en þeirra mestar eru aðalanddyratröppur spítalans.

Loftræsting í húsi þessu er mjög vönduð í húsi þessu og nær til hvers einasta herbergis þess.

Stigar eru úr steinsteypu og er allt húsið sementssléttað að utan.

Samanlagt brunavirðingamat hússins 21. júní 1930 var 1.149.719 kr. Útgjaldaliður fjárlaga ríkissjóðs 1930 var um 11,9 milljónir svo virði hússins var um 10% af útgjöldum ríkisins það árið en fjármunum hafði verið veitt í bygginguna úr ríkissjóði frá 1926.

 

Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur