Minnsta skjal manntalsins 1703

Minnsta skjal manntalsins 1703. Miði úr Bitruhreppi í Strandasýslu.

Minnsta staka skjal manntalsins 1703 er þessi miði úr Bitruhreppi í Strandasýslu. Hann er um 9 sm á hvora hlið. Um fjörutíu stakir miðar eru á meðal þeirra um 1700 síðna sem manntalið er skrifað á. Flestir lausu miðanna er með upplýsingum um utansveitarfólk (flakkara) eða ómaga. Sérstaða þessa miða er að á honum eru engin nöfn fólks. Hann er hins vegar staðfesting á því að rannsókn á því hvort flakkarar höfðu dvalið í sveitinni laugardagsnóttina fyrir páska fór fram. Miðinn sýnir þar með þá hlýðni sem hreppstjórar sýndu þessu verkefni að telja fólk í landinu samkvæmt fyrirmælum um slíkt.

Textinn á miðanum er svofelldur:

I þessare sueit i Birtu og Kolla firde, hafa eÿ lausgangarar neiner neinstadar nattstadder verid, tiltekna laugardags paskahätÿdarennar nótt. edur nälægt henne fyrer eda eftter til merkis skrifum vier ockar nófn og skrifa latum 1703 datum 30 maius.

Sigurdur teitson med eh.
Jon Tomasson meh
Gisle Sæmundsson handsalade
Jon Tomasson elldre handsalade.

 

Þetta efni er frá Þjóðskjalasafni Íslands