Nýlega eignaðist Héraðsskjalasafn Dalasýslu vísnasafn Einars Kristjánssonar skólastjóra á Laugum og fyrsta héraðsskjalavarðar safnsins. Meðal þess sem Einar lagði sig eftir að safna, voru vísur og kvæði ort af konum í Dölum.
Júlíana Jónsdóttir var fædd 27. mars 1838 á Búrfelli í Hálsasveit. Hún ólst upp hjá föðurafa sínum og konu hans á Rauðsgili í Reykholtsdal. Eftir fermingu var hún á ýmsum stöðum, en lengst á Kollsá í Hrútafirði. Árið 1860 fer hún í Akureyjar á Breiðafirði í vinnumennsku hjá sr. Friðriki Eggertz. Var hún þar í 14 ár og kenndi hún sig síðan við Akureyjar.
Úr Akureyjum flytur hún í Stykkishólm, þar sem hún vann fyrir sér með ýmsum störfum. Árið 1876 gefur Júlíana út ljóðabókina Stúlka á eigin kostnað. Er það fyrsta útgefna ljóðabók íslenskrar skáldkonu, en seint verður sagt að hún hafi vakið mikla athygli á þeim tíma. Þá skrifaði hún leikritið „Víg Kjartans Ólafssonar“. Var það sviðsett í Stykkishólmi veturinn 1879 og lék Júlíana aðalhlutverkið, Guðrúnu Ósvífursdóttur.
Um 1885 flytur Júlíana til Vesturheims. Fyrst dvelur hún í Norður-Dakóta og Winnipeg en flytur síðan í nágrenni Seattle. Vann hún fyrir sér með heimilishjálp og barnapössun. Önnur ljóðabók Júlíönu Hagalagðar kom út 40 árum á eftir þeirri fyrri, 1916 í Winnipeg. Síðustu ár ævinnar bjó hún á heimili íslenskra hjóna í Blaine í Washingtonfylki og andaðist þar 12. júní 1917.
Ljóð Júlíönu byggja einkum á rímnahefðinni, en þó bregður fyrir annars konar bragarháttum.
Sólarupprás
Sól af austurstraumi stígur,
stafar geislum djúpin blá,
dagsins himnesk drottning flýgur
dýrðleg gullnum vængjum á;
dimma grímu geisli hrekur,
glaður kyssir dal og hól;
alla þjóð til orku vekur
eilíf – fögur morgunsól.
Nokkrar skáldkonur eru úr Dölum, misvel þekktar. Eftir sumar þeirra eru til heilu kvæðin eða eingöngu vísubrot. Af öðrum er það eitt vitað að þær voru hagmæltar.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Dalasýslu