Forsíða dulmálslykilsins úr Stellu NK-61.
Flugfélag Íslands var stofnað í Reykjavík 1. maí 1928. Árið 1919 var að vísu stofnað flugfélag með sama nafni, en það starfaði aðeins í eitt og hálft ár og var þá lagt niður. Á árunum 1928 til 1931 gerði Flugfélag Íslands út fjórar Junkers flugvélar sem voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar,þó aldrei nema tvær vélar í einu. Ein vélanna, Súlan, nauðlenti á Skagafirði í ágúst 1931 og hafði þá verið í síldarleit. Engin loftskeytatæki voru í þessum vélum.
Árið 1938 var aftur farið að nota flugvélar til síldarleitar. Flugvél frá danska varðskipinu Hvidbjörnen flaug um tíma daglega, endurgjaldslaust, í síldarleit og hafði þá samband við loftskeytastöðina á Siglufirði sem tilkynnti Síldarútvegsnefnd síldarfundi jafnharðan og einnig var þessum upplýsingum komið til síldarskipanna. Einnig voru tilkynningar um síldarfundi settar í gúmmíflöskur sem flugvélin varpaði niður til skipanna. Þetta þótti mikið hagræði því flugvélarnar voru miklu fljótari í förum en skipin. Síldarútvegsnefnd leigði líka flugvél Flugfélags Akureyrar, TF-Örn, um tíma til síldarleitar. Þeir sem stóðu að síldarleit með flugvélum voru síldarverksmiðjurnar á Norður- og Austurlandi, síldarútvegsnefnd og fiskimálanefnd. Talið var að upplýsingar frá flugvélum hafi orðið til þess að flotinn veiddi á einni kvöldstund útflutningsverðmæti að upphæð fjórar milljónir króna (uþb 137 mkr 2013), sem annars hefði farið forgörðum.
Til að tryggja að þessar dýrmætu upplýsingar bærust ekki öðrum en íslenskum veiðiskipum voru útbúnir dulmálslyklar fyrir skeytasendingar til síldveiðiflotans. Þessir dulmálslyklar voru notaðir nokkur sumur, en reyndust ekki jafn notadrjúgir og ætlað var þar sem brögð voru að því að sumir skipstjórar síldveiðiskipa skýrðu frá efni skeytanna þegar þeir höfðu ráðið dulmálið. Þessi misnotkun dró úr notkun dulmálslyklanna.
Hinn 9. apríl 1954 samþykkti Alþingi lög um síldarleit úr lofti á sumrum fyrir Norður- og Austurlandi. Í þeim voru ákvæði um síldarleit, síldarleitarnefnd og síldarleitarstjóra, sem átti að leigja flugvélar til síldarleitar. Kostnaður við síldarleitina átti að greiðast úr Fiskimálasjóði (1/3) og síldarútvegsnefnd og síldarverksmiðjur sem störfuðu á svæðinu frá Horni að Djúpavogi (2/3). Þá var gert ráð fyrir að atvinnumálaráðherra geti ákveðið „að fréttasendingar síldarleitarinnar skuli fara fram á dulmáli, og skal síldarleitarstjóri þá semja dulmálslykil, einn eða fleiri, og afhenda hann starfsmönnum síldarleitarinnar, stjórn Landssíma Íslands, landhelgisgæzlunni og skipstjórum á íslenzkum síldveiðiskipum“ eins og segir í lögunum. Þeir sem fengu dulmálslykla eða fréttir á dulmáli frá síldarleitinni var skylt að fara með það sem trúnaðarmál og voru viðurlög við brotum á þessum ákvæðum í formi sekta, 500-1000 krónur, eða sæta sviptingu dulmálslykils og innsiglingu tækja, ef sakir voru miklar.
Leit að síld úr lofti takmarkaðist við að koma auga á síld vaða. Með tilkomu ASDIC-tækja um og miðjan sjötta áratug síðustu aldar dró mjög úr síldarleit úr lofti og skip útbúin dýptarmælum og ASDIC-tækjum tóku síðan við hlutverki síldarleitandans.
Hér að ofan eru sýnd sýnishorn af dulmálslykli sem var notaður í Stellu NK-61. Einnig eru sýnd dæmi um skýringar við dulmálslykilinn.
Heimildir
- Ágrip af sögu atvinnuflugs á Íslandi.
- Friðrik A. Jónsson, „ASDIC-tæki“. Sjómannablaðið Víkingur, 23. árgangur 1961, bls 10-11.
- Greinargerð með frumvarpi til laga um síldarleit úr lofti.
- Stefán O. Björnsson, „Þegar Súlan nauðlenti á Skagafirði“. Jólablað Tímans 23. desember 1959, bls 11-12.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar