Skjalasafn Jóns Þ. Björnssonar

Jón Þ. Björnsson skólastjóri

Jón Þ. Björnsson skólastjóri stendur á tröppum Gamla barnaskólans á Sauðárkróki laust fyrir 1950. Ljósmynd úr safni Kristjáns C. Magnússonar.

Forsíða dagbókar Jóns Þ. Björnssonar

Forsíða dagbókar Jóns Þ. Björnssonar.

Jón Þ. Björnsson var fæddist árið 1882. Eftir nám í Danmörku varð hann skólastjóri á Sauðárkróki, þar sem hann vann allan sinn starfstíma. Samhliða annasömu starfi sem skólastjóri var hann hreppsnefndaroddviti um langt skeið og sinnti þar flestum opinberum störfum sem til féllu, ritaði fundargerðir og bréf, greiddi reikninga og innheimti gjöld og færði bókhald fyrir alltsaman, enda hafði hreppurinn engan fastan starfsmann. Auk alls þessa var Jón forsvarsmaður í stúkustarfi og helsti forvígismaður kirkjustarfs á Króknum svo eitthvað sé nefnt. Fjölskyldan var stór og fyrir mörgum börnum að sjá svo vinnudagurinn hefur efalítið verið langur hjá heimilisföðurnum. Engu að síður gaf hann sér tíma til að skrifa fjölda bréfa til vina og kunningja og rita dagbók í nær 60 ár. Skjalasafn Jóns er gríðarmikið að vöxtum enda var Jón reglufastur og henti ógjarnan pappírum.

Dagbækurnar, sem eru afar ítarlegar, og önnur einkagögn Jóns eru einstakar samtímaheimildir og er safnið gott dæmi um vel skipulagt og lýsandi skjalasafn sem nær frá unglingsárum til æviloka. Jón lést árið 1964 og var skjalasafnið afhent af afkomendum hans.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga