Lengi er von á einum

Hluti fundargerðar Jarðræktarsambands Saurbæjar- og Hrafnagilshreppa frá 1947

Hluti fundargerðar Jarðræktarsambands Saurbæjar- og Hrafnagilshreppa frá 1947 (F-64/1). Gunnar Jónsson hafði ekki heyrt talað um Austurbyggð yfir bæjarröðina austan Eyjafjarðarár og sunnan Núpár.

Þegar Gunnar Jónsson frá Villingadal kom á Héraðsskjalasafnið á Akureyri um daginn fann hann fjársjóð. Gunnar hefur í gegnum árin verið duglegur að safna saman skjölum úr Saurbæjarhreppi og komið með þau til varðveislu á safnið. Svo var einnig þennan daginn en í leiðinni skoðaði Gunnar fundargerðir Jarðræktarsambands Saurbæjar- og Hrafnagilshreppa. Í fundargerð frá 4. mars 1947 er talað um Framræslufélag Austurbyggðar.

Gunnar hefur kynnt sér heimildir um félög í Saurbæjarhreppi og er orðinn sérfræðingur um félagslífið í hreppnum en hann hafði ekki áður heyrt um Framræslufélagið. Félagið er það 45. sem hann veit um að starfað hafi í hreppnum frá 1875, þegar Framfarafélag Eyjafjarðar var stofnað, til 1. janúar 1991 þegar hrepparnir þrír sunnan Akureyrar voru sameinaðir í sveitarfélagið Eyjafjarðarsveit. Hvert einstakt félag er merkilegt og það að finna enn eitt hefur mikið gildi.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri