200 ára gamlar sagnir af Tjörnesi

Jóhannes Guðmundsson hreppstjóri og fræðaþulur.

Jóhannes Guðmundsson, f. 24.6.1829 – d. 25.9.1922, var lengi hreppstjóri í gamla Húsavíkurhreppi. Bjó hann mörg ár í Saltvík, síðar í Fellsseli loks dvaldi hann lengi í Ytritungu á Tjörnesi hjá syni sínum Jóhannesi. Jón Jakobsson í Árbæ á Tjörnesi skráði um 1900 eftir Jóhannesi “Bændatal af Tjörnesi”. Jóhannes var mikill fræðaþulur en í þessum sögnum er þó ýmislegt fleira látið fljóta með annað en það sem snerti búskap tiltekinna manna á Tjörnesi. Í dag myndu sumar þessar sögur almennt vera kallaðar kjaftasögur. Umfjöllunarefni og frásagnarmátinn er athyglisverður borinn saman við það sem tíðkast hjá góðum sögumönnum í dag svo og í fjölmiðlum. Texti er stafréttur. (HRP 76-2)

Titilblað „Bændatal af Tjörnesi“

Titilblað „Bændatal af Tjörnesi“.

Pétur „Smuk“ Þorvaldsson sigldur maður. Synir hans og Karitasar Jónsdóttur voru Jónas snikkari Pétursson faðir Þorbjargar konu í Blikalóni á Sléttu (1900). Kona Jónasar var Sigríður Jónasdóttir „heillagóða“ einnig í Blikalóni. Annar var Jónatan á Fluthingsfelli [hlýtur að eiga að vera Flautafell, innsk.] í Þistilfirði. Lánaði hann eitt sinn sr. Vigfúsi á Svalbarði peninga að upphæð 600 rd. Var þá Þorlákur Bóndi Jónsson í Sveinungsvík bróðir Jóns „skramba“ og Gunnlaugs „dauða“. Drukknaði hann á sjó af sambýlismanni sínum Jóni Marteinssyni er síðar hengdist í myllu á Sveinungsvík fyrir það að hálsnet hans flæktist um möndulinn. Á orði var að hann hefði fleygt Gunnlaugi útbyrðis og öðrum manni til því óvild var mikil milli bændanna. Sigurlaug kona Þorláks var í mikilli vinsemd við Vigfús prófast. Var sagt að Vigfús hefði beðið Sigurlaugu að telja svo um fyrir Jónatan að hann gæfi sér peningana fyrir sálu sinni. Það var og að Sigurlaug taldi svo um fyrir Jónatan að hann gaf próf. upp alla skuldina. Litlu seinna sá Jónatan eftir gjöfinni og varð geðveikur og hengdi sig að lokum. Sonur hans mun hafa verið Halldór bóndi Jónatansson á Ingjaldsstöðum (1887).

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Þingeyinga