Stella NK-61

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941. Hér sjást færslur dagana 13. – 21. ágúst 1939.

Stella NK-61 frá Norðfirði.

STELLA NK-61 var smíðuð hjá Brödrene Andersen Baadebyggeri og Savskæreri í Frederikssund í Danmörk árið 1910; tvísigld mótorskonnorta, karvel byggð úr eik og lerki, 34,40 brúttótonn að stærð, 10,93 nettótonn, 49,9 fet (15,21 m) á lengd, 17,2 fet (5,24 m) á breidd og risti 7,1 fet (2,16 m). Stella var afhent eiganda fyrir 1. mars 1910. Eigandi var Verslun Þorbjargar Runólfsdóttur á Nesi í Norðfirði. Þorbjörg nefndi hana Stellu SU-3.

Stella flutti vörur frá Thor E. Tulinius & Co. í Kaupmannahöfn til Norðfjarðar. Hún sigldi frá Danmörku þann 3. maí 1910 og kom til Norðfjarðar 12. maí. Eftir komuna til Norðfjarðar var hún skrásett og gefið út fiskiveiðaskírteini fyrir hana, hvort tveggja gert 14. maí 1910.

Stella var í eigu Þorbjargar Runólfsdóttur og afkomenda hennar allt til ársins 1954.

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941. Hér sjást færslur dagana 22. – 27. ágúst 1939.

Um tíma (1917-1934) var Stella gerð út frá Akureyri og skráð Stella EA-373. Á þeim tíma var Verslun Snorra Jónssonar á Akureyri meðeigandi að Stellu ásamt Sigfúsi Sveinssyni, syni Þorbjargar Runólfsdóttur.

Árið 1913 var Stella lengd á Akureyri og árið 1920 var settur á hana skúti, styrkt bönd og styttur, einnig er settur á hana nýr skans. Þessi breyting fór fram á Akureyri og árið 1927 voru þar enn gerðar breytingar á skipinu. Þá var hluti þilfarsins endurnýjaður, sett grind undir mótorhúskappa, tveir þverbitar og allir styrkbitar settir nýir. Einnig var sett nýtt afturmastur, skammdekk og hástokkar settir nýir á parti.

Árið 1934 er Stella umbyggð og stækkuð á Norðfirði af Peter Vigelund, kunnum skipasmið. Þá var gefið út skipasmíðaskírteini fyrir hana, dagsett þann 7. júlí 1934. Í því er hún nefnd Stella NK-61. Eigandi er þá skráður Verslun Sigfúsar Sveinssonar í Neskaupstað. Þann 13. janúar 1935 andaðist Sigfús Sveinsson kaupmaður, 59 ára gamall. Eftir það sá Guðmundur Sigfússon sonur hans um rekstur verslunarinnar sem hélt nafni sínu óbreyttu. Stella var gerð út í báðum heimsstyrjöldunum og sigldi mikið með fisk til Englands í seinna stríðinu.

Árið 1954 var Stella seld til Útgerðarfélags Grindavíkur og fór alfarin

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941. Hér sjást færslur dagana 28. ágúst – 3. september 1939.

frá Norðfirði miðvikudaginn 15. desember 1954. Eftir eigendaskiptin varð heiti skipsins Stella GK-350.

Aðfaranótt þriðjudagsins 27. ágúst 1962 sökk vélbáturinn Stella GK-350 frá Grindavík, en fimm manna áhöfn bátsins bjargaðist um borð í vélbátinn Flóaklett frá Hafnarfirði. Þegar þetta gerðist var Stella á humarveiðum um 10-15 sjómílur norður af Eldey.

 

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941

Síða úr leiðarbók Stellu NK-61 1934-1941. Hér sést færsla dagsins 28. ágúst 1939.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Neskaupstaðar