Upphaf skipulagsmála á Ísafirði

Ísafjörður sumarið 1866. Samlímd víðmynd af Skutulsfjarðareyri tekin af Sigfúsi Eymundssyni ljósmyndara. Til vinstri má m.a. sjá Eyrarbæinn, nýbyggða kirkjuna og verslunar- og íbúðarhúsin í Hæstakaupstað en til vinstri sjást húsbyggingar tilheyrandi Miðkaupstað.

Hinn 18. ágúst 1786 kunngerði Danakonungur að einokun yrði afnumin á Íslandi frá og með 1. janúar 1788. Tilskipun um sama efni var gefin út 13. júní 1787 og voru þá sett lög um verslun á Íslandi er gilda skyldu frá 1. janúar 1788. Samkvæmt nýju verslunarlögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og var Ísafjörður einn þeirra. Hinn 24. apríl 1787 mældi Jón Arnórsson sýslumaður út lóð hins nýja kaupstaðar á Skutulsfjarðareyri. Náði hún yfir alla eyrina frá Suðurtanga að Prestabugt en takmarkaðist að ofan við línu er hugsaðist dregin 96 álnum fyrir neðan neðsta fjárhús Eyrarklerks. Á kaupstaðarlóðinni var talið að reisa mætti hús fyrir 30-35 fjölskyldur, auk landrýmis undir nauðsynlega vegi og götur.

Upphaf fyrstu fundargerðar nýskipaðrar byggingarnefndar Ísafjarðarkaupstaðar, dagsett 18. október 1866

Upphaf fyrstu fundargerðar nýskipaðrar byggingarnefndar Ísafjarðarkaupstaðar, dagsett 18. október 1866. Undir fundargerðina skrifuðu nefndarmennirnir Stefán Bjarnason bæjarfógeti, Lárus Á. Snorrason verslunarstjóri, Guðbjartur Jónsson skipstjóri, Jens Kristján Arngrímsson járnsmiður og Þorvarður Þórðarson smiður.

Haustið 1816 varð sú breyting með konunglegri tilskipun að Grundarfjörður fékk kaupstaðarréttindi í Vesturamti í stað Ísafjarðar sem varð úthöfn frá Grundarfirði til ársins 1836, en fékk þá löggildingu sem verslunarstaður. Var svo til ársins 1866, en 26. janúar það ár staðfesti Kristján konungur IX. reglugerð um kaupstaðarréttindi Ísafjarðar og stjórn bæjarmálefna þar. Um leið var staðfest reglugerð um stofnun byggingarnefndar á Ísafirði sem skyldi skipuð fimm mönnum: bæjarfógeta, tveimur bæjarfulltrúum og tveimur bæjarbúum sem ekki áttu sæti í bæjarstjórn.

Nefndin kom saman til fyrsta fundar síns 18. október 1866. Mörg verkefni biðu hennar og það brýnast að koma einhverju skipulagi á bæinn, ákveða götur og torg, en bygging húsa hafði fram til þessa verið stjórnlítil og ekki farið eftir neinum fyrirfram ákveðnum reglum. Á fyrsta fundinum voru þessum götum gefin nöfn: Aðalgata, Kirkjustígur, Brunngata, Sjávargata, Strandgata og Torgið.

Gerðabækur byggingarnefndarinnar eru til frá byrjun sem og skipulagsuppdrættir frá ýmsum tímum þannig að varðveist hefur heildstætt yfirlit yfir uppbyggingu á Eyrinni í Skutulsfirði frá upphafi til dagsins í dag.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu Ísafirði