Kvikmyndin Austurland

Gjafabréf Austfirðingafélagsins á Akureyri.

Kvikmyndin Austurland eftir Eðvarð Sigurgeirsson var tekin á árunum 1960-1966 af bæjum, kauptúnum, fólki, atvinnulífi og staðháttum á Austurlandi. Myndin var gerð að frumkvæði Austfirðingafélagsins á Akureyri og árið 1970 var hún færð Múlasýslum, Seyðisfirði og Neskaupstað að gjöf. Kvikmyndin var síðar afhent Héraðsskjalasafni Austfirðinga til varðveislu.

Eiríkur Sigurðsson skólastjóri frá Dísarstöðum í Breiðdal var einn þeirra sem vann að undirbúningi myndarinnar. Hann ferðaðist um, valdi góða tökustaði og skrifaði kynningar- og skýringatexta fyrir myndina sem varðveittir eru hér í skjalasafninu. Texta myndarinnar flytur Óskar Halldórsson lektor í íslensku frá Kóreksstaðagerði í Hjaltastaðaþinghá en um tónlist sá Jón Þórarinsson tónskáld frá Gilsárteigi í Eiðaþinghá. Sýningartími myndarinnar er 80 mínútur.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga mun sýna kvikmyndina í tilefni af Dögum myrkurs á Austurlandi dagana 7.-17. nóvember.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Austfirðinga