Möðrufellslangloka

Þriðja erindi kvæðisins

Í þriðja erindi kvæðisins er tala um Sigríði, Álfheiði og Guðrún dætur Jóns lærða og Helgu Tómasdóttur konu hans. Þar eru einnig nefndir Hákonar tveir en það munu líklega vera Hákon Jónsson Espólín og Hákon Einarsson, sem báðir voru til náms í Möðrufelli og urðu seinna tengdasynir þeirra Jóns og Helgu. Hverjir Jónarnir tveir eru er óvíst, en annar þeirra gæti verið Jón sonur Jóns og Helgu, en hann var síðar kallaður Jón helsingi.

Skjalasöfn eru fjársjóðshirslur, hvert skjal er dýrgripur og skjalaverðir vörslumenn fjársjóðsins. Það hvað er fjársjóður eða dýrgripur er afstætt, hvað varðar efni og tíma og líka hver skoðar. Upplýsingar sem fram koma í skjali geta verið mikil tíðindi fyrir einn en eru hversdagsleg tugga fyrir annan. Það sem í dag er merkilegt verður það ekki endilega á morgun. Það sem einhver finnur núna er merkilegt fyrir hann, því hann sér það í öðru samhengi en aðrir sáu það í gær og vissu alltaf af.

Síðari hluti kvæðisins um fólkið í Möðrufelli

Síðari hluti kvæðisins um fólkið í Möðrufelli.

Á Héraðsskjalasafnið á Akureyri kom kona sem var að leita að heimildum um eða frá feðgunum Jóni Jónssyni og syni hans Jóni Jónssyni lærða. Jón Jónsson eldri (1719-1795) var prestur í Grundarþingum og bjó m.a. í Gnúpufelli. Hann þótti hinn liprasti við prestsverk, var prýðilega að sér í lækningum og áhugasamur um náttúrufar og hélt veðurbækur. Jón Jónsson lærði (1759-1846), var prestur í Grundarþingum eftir föður sinn en síðar í Möðruvallaklaustursprestakalli. Hann samdi fjölda ritgerða og orti nokkuð, einkum um andleg efni. Jón yngri bjó um skeið í Möðrufelli.

Skjalavörður leitaði gagna og sótti eitt og annað gott í geymsluna. Í ógáti rétti skjalavörðurinn konunni kver frá Benjamín Benjamínssyni frá Björk í Sölvadal (G-63/3), ætlaði að rétta henni allt annað, en þetta slys varð til þess að konan fann fjársjóð. Kverið er samtíningur ýmissa gamalla blaða sem bundin hafa verið saman. Á saurblöðunum er texti sem gæti verið frá og með hendi Jóns yngra. Það sem konunni þótti merkilegast var kveðskapur eftir óþekktan höfund, sem hún hafði ekki séð áður. Kvæðið heitir „Langloka um Möðrufells fólkið“ og er um fólkið á bænum s.s. dætur Jóns, annað heimilisfólk og vinnufólk.

Fyrsta erindið er svona (fært til nútímaritháttar):

Hleiðólfs ára hjörtur nýr
hleypur fram á sonar mar
Möðrufelli snöggt að snýr
snekkjan litla nýræða.

 

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafninu á Akureyri