
Teikningar og klippimyndir Sölva eru varðveittar víða um land, jafnt hjá söfnum og í einkaeigu. Þessi klippimynd Sölva er varðveitt í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.
Sölvi Helgason hefur áunnið sér sess sem einn sérstæðasti listamaður sem Ísland hefur alið. Sölvi naut ekki velvildar á sinni ævitíð og var í sífelldum átökum við yfirvöld á Íslandi, enda laut hann ekki reglum samfélagsins. Bækur hafa verið ritaðar um Sölva, sýningar haldnar á list hans og sagnir um hann eru varðveittar um allt land, bæði í handritum sem munnmælum. Í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga er varðveitt talsvert magn af handritum Sölva. Þau handrit hafa að öllum líkindum dagað uppi á skagfirsku sveitaheimili. Kannski hefur Sölvi ætlað að nálgast handritin síðar, en af því hefur ekki orðið. Handritin veita innsýn í líf þessa sérstæða manns og eru þjóðargersemar.

Bóka- og skjalahlaða Sölva Helgasonar.
Hluti af eiginhandarriti Sölva Helgasonar. Hér veltir Sölvi fyrir sér hvernig skjalasafn hans sjálfs eigi að líta út eða eins og segir í textanum þá eigi skápur sá sem varðveiti skjöl hans að hafa allt að 200 skúffur, en af smíði hans geti ekki orðið fyrr en Guð væri búinn að veita honum „góða og rólega stöðu“.
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga