Bréf Steinunnar Stefánsdóttur, bls 1.
Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar var nýlega afhent dýrmætt bréf. Bréf þetta sendi Steinunn Stefánsdóttur (1855-1942) í Fíflholtum í Hraunhreppi fyrir rúmum 90 árum til systur sinnar í Vesturheimi, Ingveldar Stefánsdóttur (f. 1860). Afkomendur Ingveldar varðveittu bréfið eftir hennar dag en komu því síðan til afkomenda Steinunnar. Þeir afhentu síðan bréfið á héraðsskjalasafnið til varðveislu. Steinunn og Ingveldur voru dætur Stefáns Jónssonar (1812- 1875) gullsmiðs í Hítarneskoti og Guðrúnar Vigfúsdóttur (1835-1860). Þau áttu tvær dætur í viðbót, Halldóru og Mörtu Elísabetu. Steinunn giftist síðan Dalmanni Ármannssyni (1865-1922) bónda í Fíflholtum og eignuðust þau 4 börn; Guðrúnu Helgu (f. 1892), Ármann (f. 1894), Stefaníu (f. 1897, d. sama ár) og Jón (f. 1898). Ingveldur flutti til Vesturheims árið 1886 ásamt manni sínum, Halldóri Valdasyni og Maríu dóttur þeirra. Þau eignuðust síðan aðra dóttur í Vesturheimi, Valdísi (Valdys).
Í bréfinu flytur Steinunn systur sinni sorgarfréttir og gerir það á næman og varfærinn hátt með því að fjalla fyrst um það sem ánægjulegt er eins og hvað þau höfðu haft það gott um jólin. Síðan kemur að andátsfréttinni og hún skrifar; “En oft skiptir fljótt um sorg og gleði í þessum jarðneska heimi, svo fór það hjer hjá okkur, upp úr þessari jólagleði okkar varð maðurinn minn fljótlega veikur, daginn fyrir gamlársdag lagðist hann og dó 3 ja janúar…”. Eftir að Steinunn hefur sagt frá jarðarförinni og söknuðinum eftir mann sinn slær hún á léttari strengi og segist ekki þurfa að kvíða neinu ef góðu og efnilegu börnin hennar fái að lifa og felur allt guði því hann sjái hvað þeim henti best og kveður að lokum systur sína með góðum óskum. Bréf Steinunnar er mikil gersemi. Bæði gefur það góða lýsingu á jólahaldi forfeðranna og af láti og útför fjölskylduföðursins og ekki hvað síst ber það bréfritara sínum fagurt vitni bæði hvað innihald og útlit varðar. Heimildir
- Borgfirskar æviskrár X. bindi bls. 535.
- Borgfirskar æviskrár II. bindi bls. 12-13.
- Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar: Einkaskjalasafn Steinunnar Stefánsdóttur Fíflholtum.
Uppskrift bréfsins (PDF).
Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar