Lausamennskubréf kvenna

Lausamennskubréf Katrínar Þórðardóttur

Lausamennskubréf eða fararleyfi jómfrúr Katrínar Þórðardóttur frá Eyvindarmúla í Rangárvallasýslu til þess að gerast þjónustustúlka í Viðey. Dagsett 24. maí 1832. Fyrir leyfið borgaði Katrín 8 ríkisdali.

Lausamennskuleyfisbréf Helgu Jónsdóttur

Lausamennskuleyfisbréf til handa Helgu Jónsdóttur (1864-1946), vinnukonu í Sjólyst í Vestmannaeyjum, dagsett 4. apríl 1901. Undirritað af Magnúsi Jónssyni. Fyrir bréfið greiddi Helga 2 krónur til Landssjóðs.

Konur hafa í gegnum árin, sjaldan verið rúmfrekar í einkaskjalasöfnum. Þó eru til dæmi um að konur hafi þar vinninginn á við karla. Í Héraðsskjalasafninu i Vestmannaeyjum eru þrjú dæmi um svokölluð „lausamennsku(leyfis)bréf“ kvenna, en ekkert lausamennskubréf karlmanns. Aftur á móti eru í skjalasafni sýslumannsins í Vestmannaeyjum, frá árinu 1873-1909, tugir umsókna um svokölluð „húsmennskuleyfi“, ásamt vottorðum um ráðdeild og reglusemi, og vottorðum um eignir/skuldir, sem að þurftu að fylgja umsóknunum. Aðallega er þarna um að ræða umsóknir karla, en þó einstaka umsókn frá konum. Að vera í húsmennsku var að hafa öruggt húsnæði á einhverjum stað (bæ), en að vera að öðru leyti sjálfum sér ráðandi. Lausamennska aftur á móti var að starfa hér og þar, án þess að vera ráðinn í vist á einhverjum bæ.

Vinnumennska eða vistarband nefndist kvöð um að allt fólk sem að ekki ætti land og byggi á eigin jörð skyldi vera í vinnumennsku. Venjan var að fólk réði sig í ársvist í senn og skyldi einungis skipta um vist á vinnuhjúaskildaga. Þetta var í raun og veru krafa sveitasamfélagsins á Íslandi í gegnum aldirnar um að hver maður skyldi eiga grið á löglegu heimili (býli) ef að hann hefði ekki tök á að stofna heimili sjálfur. Einstaklingur varð að gerast vinnuhjú ef að hann réði ekki yfir eigin landi.

Lausamennskuleyfisbréf Kristínu Magnúsínu Pétursdóttur

Lausamennskuleyfisbréf til handa Kristínu Magnúsínu Pétursdóttur (1879-1924), vinnukonu á Brekku í Vestmannaeyjum, dagsett 18. febrúar 1910. Undirritað Karli Einarssyni. Fyrir bréfið voru greiddar 2 krónur til Landssjóðs.

Í húsagatilskipuninni frá 1746 er kveðið á um réttindi og skyldur húsbænda og hjúa. Hægt var að losna undan vistarbandinu með því að gerast lausamaður. Þá réðu menn atvinnu sinni sjálfir, en mjög ströng skilyrði þurfti að uppfylla fyrir slíku frelsi. Þetta voru yfirleitt karlar og þeir þurftu að eiga allavega tíu kúgildi, eða þrisvar sinnum meira en kostaði að stofna eigin bú. Öll lausamennska var bönnuð á Íslandi árin 1783-1863, samkvæmt tilskipun um lausamenn. Að veru- legu leyti var losað um vistarskylduna árið 1894, og enn frekar með lögum um lausamenn, þurrabúðarmenn og húsmenn árið 1907.

Lög um lausamenn, húsmenn og þurrabúðamenn

1. gr.

Þeir menn eru eigi skyldir til að vera í vist, er hafa 200 kr. eða meira í árságóða af fateignum eða öðru fje.

2. gr.

Hverjum þeim manni, sem er 20 ára að aldri, eða að fullu fjár síns ráðandi, þótt yngri sje, er heimilt að leysa sig undan vistarskyldunni eða því að taka leyfisbréf hjá lögreglustjóra.

Fyrir leyfisbréf skal karlmaður gjalda 15. kr., en kvenmaður 5 kr…

Þessi lög voru ekki felld úr gildi fyrr en með 15. gr. laga nr. 118/1990.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Vestmannaeyja