Leikur, fórnfýsi, áhugi

Úr leikskrá Leikfélags Gagnfræðaskóla Siglufjarðar frá skólaárinu 1975-1976.

Hér að ofan er sýnishorn úr 16 síðna leikskrá frá skólaárinu 1975-1976 þar sem nemendur tóku fyrir gamanleikinn „Svefnlausi brúðguminn“ sem leikstýrt var af hinum landskunna leikara Theódóri Júlíussyni.

Þáverandi skólastjóri Gunnar Rafn Sigurbjörnsson segir til að mynda í leikskrá frá skólaárinu 1975-1976 að þeir sem fylgjast með sýningum nemenda eru að fylgjast með árangri og uppskeru mikillar vinnu, fórnfýsi og áhuga. Leikur nemenda er ekki tilviljunum háður, heldur sönnun þess að nemendur skólans eru bæði færir um og geta leyst af hendi verkefni, sem krefjast alúðar, samvinnu og aga sem einmitt öll félagsleg starfsemi krefst. Það má heldur ekki gleyma því að sú vinna sem liggur að baki svona sýningu er viðbót við erfitt og kröfuhart skólanám. Vinnutími þessara nemenda er um 40 stundir á viku og við það bætist öll sú heimavinna sem skólinn óhjákvæmilega leggur þeim á herðar. Af þessum ástæðum er það undrunar og ánægjuefni að sjá og fylgjast með leiksýningum nemenda Gagnfræðaskóla Siglufjarðar.

Það er ótvírætt að öll starfsemi sem eflir og þroskar félagshyggju ungs fólks er jákvæð og af hinu góða. Leiklistarstarfsemi í skólanum er jafn nauðsynleg hverri námsgrein og ætti í rauninni að sitja við sama borð, en ekki vera auka álag og erfiði. Það getur einmitt verið af þeirri ástæðu verði starfið léttara og skemmtilegra ungu fólki, því að þetta gera þau fyrst og fremst af eigin hvötum og fyrir sjálf sig. Starf sem þannig er unnið er trúlega farsælast og skilar bestum árangri.

Þetta efni er frá Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar