
Opinber skjalasöfn eins og Borgarskjalasafn Reykjavíkur varðveita fyrst og fremst skjöl opinberra aðila. Þar er um að ræða til dæmis fundargerðir ráða og stjórna, bréfaskipti og annað sem lýsir málsmeðferð og þeim ákvörðunum sem hafa verið teknar eða ekki verið teknar. Opinber skjöl eru mikilvæg fyrir almenning og fræðimenn rekja sögu og geta nálgast upplýsingar um ákvarðanir og á hvaða forsendum þær hafi verið teknar.
Opinber skjöl segja hins vegar ekki mikið almennt um líf fólks í landinu, líðan, hugsanahátt og þjóðhætti. Viðtöl í dagblöðum og ævisögur geta fyllt inn í þá mynd. Þau eru þó persónugerð af þeim sem tekur viðtalið eða lýsa lífi og atburðum, þar sem viðmælandi er þess meðvitaður að efnið muni birtast opinberlega. Ævisögur lýsa því sem viðkomandi finnst markvert á ævinni og upplifunin er oft lituð af því sem gerðist síðar í lífi viðkomandi.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur tekur einnig við skjalasöfnum einstaklinga, félaga og fyrirtækja til varðveislu og er þar oft um að ræða ómetanlegar heimildir um mannlíf í Reykjavík og víðar. Einkaskjalasöfn einstaklinga eru eins fjölbreytt og fólkið sjálft. Oft eru í þeim dagbækur, sendibréf, ljósmyndir, póstkort og prentefni.
Borgarskjalasafn fékk til varðveislu einkaskjalasafn Baldurs Pálmasonar (1919-2010) vorið 2011. Baldur vann margvísleg störf á Ríkisútvarpinu, einkum við dagskrárgerð. Meðal annars annaðist hann lengi hinn vinsæla barnatíma Útvarpsins, þar sem hann lagði áherslu á að halda tengslum við hlustendur sína, meðal annars með því að hvetja börnin til þess að senda sér bréf og ritgerðir.
Skjalasafn Baldurs Pálmasonar er fjölbreytt eins og lífshlaup hans og er samtals 96 öskjur og er þar margan dýrgrip að finna. Meðal þess eru bréf barna til hans og ritgerðir frá árunum 1951 til 1983. Þær gefa ómetanlegar samtímalýsingar á lífi barna til sjávar og sveita, með þeirra eigin orðum. Börnin lýsa þjóðháttum, lífi sínu, fjölskyldumynstri, atburðum og framtíðarsýn.
- Úr verðlaunaritgerð.
- Úr verðlaunaritgerð.
- Úr verðlaunaritgerð.
- Úr verðlaunaritgerð.
- Úr verðlaunaritgerð.
Árið 1951 efndi Baldur Pálmason til ritgerðasamkeppni í barnatíma útvarpsins og voru verðlaunaritgerðir gefnar út í bók árið 1958. Börnin voru beðin um að lýsa því hvort þau kysu heldur að vera fullorðin en börn, hvernig fullorðna fólkið kæmi þeim fyrir sjónir og hvernig það ætti að vera að þeirra dómi, hvað þau vildu helzt taka sér fyrir hendur, er þau yxu upp, og hverja þau vildu taka sér til fyrirmyndar. Baldur gerðir sér fulla grein fyrir heimildalegu gildi ritgerðanna og segir í eftirmála bókar að „Svona mætti athuga margt í þessu sambandi og kannski beita þeim athugunum til uppeldislegra nytja fyrir börn og ungmenni.“.
Í lokaorðum segir Baldur að ritgerðirnar lýsi vel: „ …hvílíkur dýrgripur barnshjartað er og hve tjáning þess getur verið hlý og hreinlunduð, …“.
Gréta Björg Sörensdóttir og Svanhildur Bogadóttir
Þetta efni er frá Borgarskjalasafni Reykjavíkur